Af álfum

Jæja. Af því að það má segja svo margt með orðinu jæja, byrja ég á því.

Jæja. Ég er á leið í heimsreisu. (And might I add, NA NA NA BÚ BÚ!)

Átrúnaðargoð unglingsára minna söng af innlifun: Hvar er draumurinn? (og já, ég átti eins gallabuxur og eins bol og Stefán Hilmarsson) … en ég er hætt að spyrja mig þessarar spurningar. Ég ætla einfaldlega að halda í leiðangur og tékka á þessu sjálf. Finna drauminn.

Eftir áralanga erfiðisvinnu við að byggja metnaðarfullar skýjaborgir er ég komin með mastersgráðu í draumórum en hyggst nú loks nýta gráðuna í eitthvað markvissara … heimur, hér kem ég!

Þann 30. janúar næstkomandi kveðjum við sambýlismaðurinn/bestivinurinn/bólfélaginn/fjörkálfurinn (hér eftir referred to as Óskar) Ísland og ætlum við að dansa smá ævintýravals þar til íslenska vorið býður okkur (vonandi) velkomin heim þann 14. maí.

Við ætlum að ferðast án tölvu og hafa slökkt á símum nema í ítrustu neyð og því var áhyggjufullum mæðrum og öðru góðu fólki snemma lofað að rafrænir broskarlar til merkis um að ferðalangar væru á lífi yrðu sendir heim hvarvetna sem því yrði við komið. Téðir broskarlar fannst mörgum þunnur þréttándi og þykir það víst lágmark á tækniöld að farfuglar láti frá sér heyra öðru hvoru með ögn ítarlegri hætti. Ergo: Ég bjó til blogg.

Markmiðið hér er sem sagt að leyfa fyrrnefndum mæðrum (sem eru, svona í óspurðum, alveg svakalega ágætar!) og öðrum áhugasömum/forvitnum/öfundsjúkum (hohoho) að fylgjast með okkur eftir því sem ég get og nenni að skella hér inn nokkrum línum. Svo kemur bara í ljós hversu oft og mikið það verður. Þar sem við erum dálítil (lesist: umtalsverð. Ok, heilmikil) nörd og hyggjumst einmitt burðast umhverfis hnöttinn með nokkur kíló af ljósmyndabúnaði, ber að taka fram að þetta verður ekki myndablogg. Við munum víst örugglega hafa eitthvað betra að gera þennan þrjá og hálfa mánuð en að sitja við tölvuskjái að vinna myndir, svo þær tínast bara á netið eftir ferð.

Ferðaplanið lítur svona út, í grófum dráttum (og sérlega áhugasamir geta dundað sér við að skoða ÞETTA kort:

30.janúar: Reykjavík-London.

1.febrúar: London- Nairobi, Kenýa.
-þaðan stefnum við á að ferðast til Tanzaníu og Zanzibar auk þess að kíkja í safarí.

21.febrúar: Nairobi- Bangkok, Tæland.
-stefnt á að kíkja til Laos, Kambódíu og hugsanlega Víetnam.

12.mars: Bangkok-Singapore.
-heimsókn til Kuala Lumpur er líkleg. Okkur gæti líka dottið í hug að kíkja til Borneó.

24.mars: Singapore-Balí, Indónesíu.
-Nokkurra daga afslöppun og kannski köfun.

29.mars: Balí- Sidney, Ástralíu.
-Planið er að kíkja kannski líka til Melbourne og auðvitað að ferðast eitthvað um.

14.apríl: Sidney- Auckland, Nýja Sjálandi.
-Hér gæti verið sniðugt að leigja bíl og keyra um landið; smella jafnvel líka einni fimmu á hressa frumbyggja.

22.apríl: Auckland-Santiago, Chile.
-Eigum síðan flug frá Buenos Aires í Argentínu svo annað hvort ferðumst við um og fljúgum þangað, eða ferðumst landleiðina þangað.

11.maí: Buenos Aires-London.

14.maí: London-Reykjavík.

Flugleiðirnar eru sem sagt ákveðnar en ferðaplön að öðru leyti mjög sveigjanleg og allar góðar ábendingar varðandi áhugaverða staði til að heimsækja, must-do activities, hluti sem ber að varast o.s.frv. eru afskaplega vel þegnar; hér eða á hrundth@gmail.com!

Að lokum ætla ég svo að benda ykkur á hið geysihaglega gestakerfi sem innbyggt er í síðuna og hvetja ykkur til að kommenta eins og vindurinn… því ef enginn les bloggið er jú alveg eins gott að halda sig við upprunalega broskarlar-til-áhyggjufullra-mæðra-kerfið góða ;)

Svo þið munið hvernig við lítum út á meðan við verðum í burtu, voila:

Mynd sem Óskar tók af okkur í París 2009.

Yfir, en ekki út. Ykkar,
Heimsálfur